Dónalegir fjölmiðlamenn

Ég verð alltaf dáldið pirruð þegar talað er við Jóhönnu Sigurðar í sjónvarpinu en mér finnst spyrlarnir vera mjög oft yfirmáta harðir og dónalegir þegar hún á í hlut. Það er eins og vinsældir hennar fari í taugarnar á fréttamönnum og síðan hún tók vð hafa fréttamenn og kastljósmenn reynt að rægja hana og draga einhvern skít upp til að sverta hana en ekkert hefur dugað til. Samkvæmt skoðanakönnunum eru vinsældir hennar ennþá mjög miklar og fylgi samfylkingarinnar eykst. Reyndar eru kastljós spyrlarnir oft mjög leiðinlegir og dónalegir en það var ekki tilfellið þegar rætt var við Davíð fyrrverandi seðlabankastjóra. Sigmar var reyndar mjög góður og ákveðin án þess að vera dónalegur þó Davíð héldi því fram. Venjulega fara samt viðtöl við fólk í brennidepli ekki þannig fram. Oftast grípa spyrlarnir ítrekað fram í og reyna að æsa viðmælendur upp með öllum ráðum en Davíð fékk að tala óáreyttur langa stund og réttlæta sig og útskýra málin og ljúga auðvitað eins sannfærandi og hann gerir alltaf. Mér fannst hann fá einhverja sérmeðferð og það fór í taugarnar á mér. Mér þætti fróðlegt að mæla þann tíma sem hann fékk að tala í samanburði við ýmsa aðra sem hafa komið í kastljósið. Og ég vildi líka spila nokkur viðtöl við Jóhönnu þar sem fréttamenn reyna allt hvað þeir geta að æsa hana, rengja hana og tala jafnvel niður til hennar við hliðina á viðtölum við Geir Haarde til dæmis...
Væri örugglega vert rannsóknarverkefni fyrir jafnréttisnefndir eða samfélagsfræðinga. Það er skrítið en mér finnst það alveg augljóst að Jóhanna ögrar fréttamönnum á einhvern hátt, einkanlega körlum. Kannski er það vegna þess að hún er mjög kvenleg og næstum viðkvæmnisleg á köflum en hefur svo samt bein í nefinu..það er allavega eitthvað.


Hvað skal skrifa?

Æi ég er oft að hugsa hvað maður gerir við svona blogg og er að feta mig áfram í þessum geira. Núna hef ég tekið þá ákvörðun að skifa bara það sem mér dettur í hug. Ekkert að hugsa um að það sé einhver sem ætlar eða kemur til með að lesa þetta. Það er nefnilega algjörlega aðskilið hjá mér. Þegar ég skrifa um skoðanir mínar á pólitík set ég mig í ákveðnar stellingar og vanda mig að setja hlutina vel fram etc. Ef ég er bara að skrifa mér til skemmtunar og til að fá smá útrás fyrir hugann þá skrifa ég í flæði og þá er ekkert vit í því stundum:-) fyrir aðra meina ég.
Nú var ég tildæmis að hugsa um að skrifa bók sem heitir ,,Reiði" Ég er alltaf að fá hugmyndir af bókum og svo geri ég ekkert. Byrja hérna í tölvunni. Ég á svona 10 byrjanir á sögum eða leikritum sem eru enn í tölvunni og stundum eru brot einnig í dagbókunum mínum. Stundum dreymir mig um tíma til að halda áfram með þessar sögur en svo þegar tíminn kemur er ég búin að fá aðra hugmynd.
Já þessi bók reiði fjallar um reiðina. Um konu sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða orðið fyrir áreitni sem barn og unglingur og hvernig reiðin býr í henni þó allt virðist slétt og fellt á yfirborðinu. Svo gerist eitthvað sem eins og vekur hana af dvala og reiðin gýs upp með heljarafli og enginn sem hefur gert eitthvað á hlut hennar er óhultur.
Þetta verður metsölubók og vekur mikla athygli:-) Nú er ég semsagt komin dáldið framúr mér og þannig er það svo oft með mig.
Ég hef hugsað um þetta í einhvern tíma en það var bókin ,,Konur" sem fékk mig til að hugsa um þetta á ný. Stundum les ég nefnilega bækur sem eru þannig skrifaðar að ég finn að ég gæti þetta líka. Ekki það að gæti aldrei skrifað svona fína bók í fyrstu atrennu en stíllinn er ekkert of flókinn. Mér finnst hann flottur og sagan rennur áfram.
Ég þarf hins vegar að gefa mér tíma og ég þarf að temja mér þolinmæði og þrautsegju sem er ekki það sem ég hef mikið af þessa dagana.
En hver veit.

Heilög Jóhanna, þinn tími er núna.

Ég er svo ánægð með að Jóhanna er orðin forsætisráðherra. Og ég er jafnvel enn ánægðari yfir því að hún er lesbísk.
Ekki það að mér finnist persónulega það ekki skipta einu einasta máli en ég hef grun um að út á við skapi það þessari nýju stjórn enn meira traust. Nú líta þjóðir heims á okkur sem fordómalausa og framsækna félagshyggju þjóð, þar sem forsætisráðherrann er samkynhneigð kona. Þar sem hún var ekki kosin þá er tekið mark á skoðanakönnunum sem sýna að hún nýtur stuðnings 75% þjóðarinnar. Áfram Jóhanna, þinn tími er kominn.
Ég vona svo að Steingrímur J. standi við allt sem hann hefur sagt og það verði hætt við hvalveiðar (allavega setja inn einhverjar takmarkanir) og svo vil ég að hann sjái til þess að garðyrkjumenn fæai ódýrt rafmagn en sé ekki að borga það fullu verði þegar Álverin fá það næstum gefins. Mér finnst þetta í raun lýsa fráfarandi ríkisstjórn að segja að þetta sé það sem garðyrkjumenn verði að borga til uppbyggingar vegna kreppunnar. Og svo skógarbændur. Að allir verði að fórna sér fyrir þjóððina. En Álverin þurfa ekkert að gera eða hvað? Var ætluninn að allar undirstöðu atvinnugreinararnar ættu að taka á sig kreppuna og svo sjúklingar og gamalmenni eða eitthvað slíkt. Allavega átti ekkert að hrófla við kóngunum. Steingrímur leiðréttu þetta sem fyrst.
Ég vona að fólk sé að átta sig á því að landbúnaður , garðyrkja, fiskveiðar, ferðamálaþjónusta og annað það sem gerir okkur að sjálfbærri þjóð eru raunveruleg verðmæti...
Ég þakka þeim sem mótmæltu á Austurvelli þegar ég komst ekki. Það virtist þurfa læti og hávaða til að stjórnvöld áttuðu sig. Ég er ekki ánægð með að lögreglan fari á félagsmiðstöðvar og tali um mótmælendur sem einhvern skríl.
Lögreglan hagaði sér skrílslega á stundum en var stundum fín. þannig var það líka með mótmælendur.

Lögregla og leti

Ég nenni ekkert að skrifa hér. Voðalega stend ég mig eitthvað illa. Ef allt færi nú á blaðið sem ég skrifa í hausnum á mér væru hér langar greinar um mótmæli og um nýja kynslóð lögreglu sem hefur auðvitað horft á alla amerísku lögregluþættina. Ofsækja stúlku sem hafði ekkert gert annað en að mómæla sem ég hélt ekki að væri ólöglegt. Kannski er okkur ekki leyfilegt að tjá okkur nema í prenti. Kannski er tjáningarfrelsið mjög takmarkað á íslandi. Lögregluvaldið er að verða allt of mikið.
Þessi töffaraháttur hjá lögreglunni er óþarfur og asnalegur en hann hræðir venjulegt saklaust fólk til að finnast það hafa gert eitthvað af sér bara af því að það var að mótmæla. Það er ekki bannað. Það er ekki glæpur og það má ekki bara handtaka fólk og yfirheyra það og leika lögguleik eins og í sjónvarpinu...
Nú er ég farin af stað.
Ég lenti sjálf yfir að skjálfa yfir hrokafullum lögreglustjóra sem hélt ræðu yfir mér þar sem hann tjáði mér fyrirlitningu á vinstri mönnum á íslandi.
Guðrún Helgadóttir var þá að hvetja fólk til að mómæla þvi að frakkinn sem ég man ekki hvað heitir, Gervusana eða eitthvað, væri rekinn úr landi.
Þarna fékk ég ræðu um hvernig þetta vinstripakk væri að fara með landið í skítinn og var svo yfirheyrð um það hverjir stæðu fyrir þessu. Ég vissi það reyndar ekki svo vel. Var bara fengin til að hengja upp plaköt og lét þau bara á staði þar sem leyfilegt var að hengja þau. Var alveg til í að styðja þessa krakka enda sammála þeim málefnalega.
En ég kom í sjokki heim og fannst ég upplifa að þeir sem áttu að vernda mig væru að ofsækja mig og segja mér að skoðanir mínar væru hættulegar og höfðu í raun ekki rétt á sér samkvæmt lögum.
Maður verður öryggislaus og paranoid eins og stelpan útskírði.

Já svo er ég búin að glápa á sjónvarpið og allir eru að segja það sama um ráðaleysi stjórnmálamanna nema Björn Bjarnason sem segir að við viljum tala um Evrópusambandið en ekki hann og finnst allt í lagi að eyða fullt af peningum í sérsveit. Hinir vildu það...hvað? Ég veit ekki hverjir vildu setja svona mikla peninga í sérsveitina ef ekki hann...
Mér fannst það góð hugmynd hjá vinkonu minni að setja alla þá peninga sem fara í fangelsin og dómsmálinn og sérsveitina í að borga blessuðum glæpamönnunum fyrir að fremja ekki glæpi. Borga þeim bara laun fyrir að sleppa því að ræna og rupla. Mun viturlegra en að bæta við peningum í sérsveit og ofbeldi. Ofbeldi getur bara af sér ofbeldi...


Leiklistarnámskeið leið út úr leiðindum.

Ég er viss um að þeir sem koma á leiklistarnámskeiðið sem ég er að fara af stað með eigi eftir að skemmta sér vel. Það verður engin kreppa í gangi þar og ég er voða spennt að fara af stað.
Núna er ég að horfa á fundinn í Háskólabíói og ég er mjög hrifin af Robert Vade og nú er hann að tala um að koma Davíð á eyju einhverstaðar. Hann hefði bara átt að vara áfram á Bermúda. Já hann er góður og hefði átt að koma á ríkisstjórnafund fyrir 2 árum síðan.
Ég er samt of syfjuð til að horfa á þetta allt. Höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð á morgun og fundur hjá barnareyminu hjá Borgarbókasafni. Já og fyrsti tíminn hjá Sönglist. Nóg að gera.

Andleg upplifun og bölsýnisspá

Jæja ekki er ég búin að standa við það að skrifa eitthvað gáfulegt hér en betra er seint en aldrei.
Í dag varð ég fyrir andlegri upplifun þegar ég las bók sem ég keypti mér um jólin. Bókin heitir ,,Mín hjartans þrá og byggir á sömum lögmálum og "The secret" eða bara aðlöðunarlögmálinu. Þarna stendur svosem ekkert nýtt en samt er þessi bók mjög praktísk og góð fyrir mann til að átta sig á hvað það er sem maður vill. hvað það er sem maður virkilega þráir.
Ég hef verið að átta mig á þessu smám saman á nýja árinu en á sama tíma verið frekar viðkvæm og brothætt. veit ekkert af hverju en það var örugglega nauðsynlegt. Eins og allt sem gerist. Ég sat svo og las þessa bók og fékk gæsahúð og táraðist til skiptist en svo kom málsgreinin sem varð til þess að alda gleði og von steyptist yfir mig.
Setningarnar voru einfaldar og ég hef heyrt þetta allt fyrr.
Höfundur hafði lengi þráð að gera eitthvað og meistari hennar segir henni að hún geti alveg framkvæmt það.
Hún hikar og hann segir ,,Eftir hverju ertu að bíða? Hún hugsar sig um og segir ,,Eftir leyfi" og hann spyr leyfi frá hverjum. ,,Frá þér? segir hún í spurn. Hann gerir henni ljóst að hún verði sjálf að gefa sér leyfið og hún framkvæmir það sem hún þráði að gera.
Einhverra hluta vegna hafði þetta svo mikil áhrif á mig að það var eins og stórum stein væri lyft af brjóstinu á mér og þessi yndislega tilfinning hvolfdist yfir mig. Já og nú hef ég gefið mér leyfi til að vera ég sjálf.
Ætla að minna mig á það á hverjum degi.

Já og svo kom ég heim og vissi ekkert hvað ég átti að gera við þessa dásamlegu orku og fór svo að horfa á bölsýnisfréttir í sjónvarpinu. Samt er ég svo sammála Róbert Wade að seðlabankastjóri og forsætisráðherra eigi að segja af sé og biðja þjóðina afsökunar...Mér þætti það ekki mikill karakter sem vegna sofendaháttar hefði haft milljón af mömmu minni. Hvað þá þegar maður hefur logið og sofið á verðinum og haft milljarða af íslensku þjóðinni.
Þannig er það nú. Og eitthvað verður að gera því annars springur einhver er ég hrædd um. Ungt fólk hefur sterka réttlætiskennd. Þjóðin verður ekki svæfð og Ingibjörg Sólrún fólkið sem mótmælir er þverskurður þjóðarinnar,
Taktu hendurnar frá augunum og eyrunum og settu þær fyrir munninn. Nema þú ætlir að segja. ,, Ég get ekki starfað með þessum sjálfstæðismönnum lengur".


Gleðilegt nýtt bjartsýnisár

Jæja. þá er komið að því að fara að tjá sig um menn og málefni. Ég hef auðvitað miklu meira vit á öllu en allir aðrir svo það er auðvitað nauðsynlegt að fólk heyri í mér:-)Ég er bjartsýn þar til yfir lýkur en dett auðvitað í drullupollana af og til en þegar ég næ að horfa á stjörnurnar get ég alltaf staðið upp.Hlakka til að bulla hér á nýju ári.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband